Ég vil spara

Eitt af fyrstu verkum Besta Flokksins átti að verða að taka upp systkinaforgang í leikskólum. Á leikskóla dóttur minnar eru fimm (já 5) pláss laus á yngstu deildinni. Leikskólinn er í göngufæri við heimili okkar og vinnustað eiginmannsins, sem er líka minn framtíðarvinnustaður. Samt keyri ég Neðstaleiti, Efstaleiti, Listabraut, Háaleitisbraut, Kringlumýrarbraut, Sæbraut,Langholtsveg og Kleppsveg á hverjum morgni og Kleppsveg, Sæbraut, Miklubraut, Háaleitisbraut, Listabraut, Efstaleiti, Neðstaleiti seinnipartinn til að fara með eins árs son minn til dagmömmu og svo keyri ég í Eirberg á Landspítalalóðinni þar sem ég sæki nám, já eða eins og þessa dagana og næstu vikur, þá er ég að fara víðsvegar um bæinn til að uppfylla verknámsskyldur mínar. Það eru engar dagmömmur lausar í hverfi 108 eða 103. Við fáum systkinaafslátt í leikskólanum af því að Borgin borgar okkur með tveimur börnum. Þessi afsláttur er fljótur að brenna upp í bensín til dagmömmunnar. Það hvíslaði því að mér lítill fugl að á ónefndum leikskóla í borginni væru tíu pláss laus á yngstu deildinni, á öðrum þrjú, á leikskólanum sem dóttir mín er á eru eins og áður sagði fimm laus pláss á yngstu deild. Það er búið að sameina, segja upp fólki með langa starfsreynslu og mikla hugsjón í starfi.
Besti lofaði réttlæti. Ég kaus Besta af því að ég trúði að hann myndi efna loforðin. Mér finnst ekki réttlæti að fólk úr öðrum sveitarfélögum fái leigðan róló af borginni og taki þar inn tíu börn í dagvistun á meðan dagmömmur í sama hverfi þurfa að pakka saman af því að þær fá ekki börn í plássin. Ég kaus Besta til dæmis út á þetta: http://bestiflokkurinn.is/en/um-flokkinn/aegerearaaetlun-besta-flokksins-allskonar-fyrir-reykjavik en mér finnst núna eins og ég hafi bara kastað atkvæðinu mínu út í loftið. Ég er ekki að gera úlfalda úr mýflugu, ég er ekki með neitt drama, ég bara tími ekki að keyra svona langt og borga tugi þúsunda fyrir dagmömmupláss (þó að dagforeldrarnir sem ég er með barnið mitt hjá séu þau bestu í bænum og ég myndi glöð borga þeim margfalt en þetta snýst ekki um það) þegar ég gæti verið að borga minna og um leið verið að stuðla að því að starfsfólk leikskólans þurfi ekki að færast til í starfi eða sitja og bora í nefið af því að það má ekki fylla plássin. Ef börnin mín fengju bæði að vera á leikskólanum myndum við nota bílinn miklu minna, sem væri til hagsbóta fyrir budduna okkar og náttúruna. Í staðinn er í það minnsta heilt ár eftir af auknu svifriki, léttari buddu og hálftómum litludeildum. Mér finnst það glatað.

NMW

Ég hef verið að bögglast eitthvað. Með skoðanir á hinu og þessu. Gleymi stundum að horfa bara á diskinn minn. Hverjum treysti ég fyrir matnum mínum? Engum, nema mér. Hver ber ábyrgð á matnum mínum? Enginn, nema ég. Hver ber ábyrgð á því að fráhaldið mitt sé það mikilvægasta í lífinu mínu í dag? Enginn, nema ég. Stundum hugsa ég um að fólki hljóti að finnast skrítið að ég segi fráhaldið vera það mikilvægasta í lífinu mínu, eigandi þrjú börn, eiginmann, heimili og skuldbindingar ... þá skyldi skoða upphafið ... fyrir fráhaldið var ég að deyja, nei, ég var dauð, andlega dauð og ófær um að sinna grunnþörfum mínum, hvað þá annarra. Það breyttist með uppgjöfinni. Í dag, 1959 dögum síðar, er ég hæf. Hæf til að sinna börnunum mínum, þeirra andlegu og líkamlegu þörfum. Ég get átt ástríkt og einlægt samband við aðra fullorðna manneskju. Ég get allt sem ég ætla mér. Ekki alltaf í fyrstu tilraun, en á endanum hefst það. Ég á að vera mætt til fundar eftir klukkutíma, nú stend ég upp, fer í sturtu, klæði mig, græja yngsta soninn og fer af stað, ég mæti á réttum tíma, ég ber virðingu fyrir tíma annarra. Ég fer á hnén, bið minn æðri mátt að leiða mig í gegnum daginn, ég ber virðingu fyrir sambandi mínu við þann mátt, geri mér fulla grein fyrir því að án hans væri ég ekki þar sem ég er í dag. Mörgum finnst örugglega ekki merkilegur staður sem ég er á í dag, í stúdentaíbúð fullri af ómegð. En ef sá hinn sami fengi að glugga í hið innra, mætti þar sjá barmafullan bikar af þakklæti, auðmýkt og kærleik. Takk


16.október 1982

Mamma mín gat allt. Heklað, saumað, prjónað, eldað, farið á spænskunámskeið, rekið ein heimili og alið upp þrjá stráka. Hún gat líka stigið til hliðar þegar ljónið kom í land og ég fæddist. Hún vann á Hrafnistu, var vinsæl og vel liðin af öllum. Hún var fyndin og orðheppin. Hún fór og heimsótti vinkonu sína eitt föstudagskvöld, ég fór með. Þær fengu sér drykk og við fórum heim í leigubíl. Ég fór að sofa í pabba holu, hún var að stússast frammi. Einhvern tíma um  nóttina rumskaði ég og heyrði hana hrjóta ofurlágt og kvenlega við hliðina á mér. Seinna um nóttina rumskaði ég aftur og tók í hendurnar hennar, þær voru kaldar og ég dró þær undir sæng til mín. Um morguninn vaknaði ég og þá var hún dáin. Ég hringdi í vinafólk, þau komu, það var farið með mig út af heimilinu. Ég sá hana aldrei aftur, fékk ekki að kveðja, ekki að vera við kistulagninguna. Þegar ég kom aftur sat pabbi í stofunni með prestinum. Svo var hún jörðuð og málið allt þar með. Það eru liðin 28 ár. Ég hugsa um hana á hverjum degi, sakna hennar alltaf.

Þakklæti

Ég var að lesa fréttablaðið frá því um helgina í morgun. Þar rak ég augun í það í grein, að nú þarf alkóhólisti sem fer í eftirmeðferð hjá SÁÁ að greiða 55 þúsund krónur fyrir það. Mér varð mjög mikið um. Þegar ég fór í meðferð 2002, þurfti ég ekki að borga krónu, ég var í 15 daga á Vogi, 28 daga á Vík og svo var ég heilt ár í kvennameðferð. Ef ég hefði þurft að borga fyrir þetta, hefði ég ekki farið, ég átti engar 55 þúsund krónur auka og hefði ég átt þær, hefði ég alveg örugglega talið þeim betur varið í annað. Ég veit ekkert hvar ég væri ef ég hefði ekki tekið þá ákvörðun að þiggja meðferð. Það er mitt helsta gæfuspor til þessa, því að þar byrjaði allt. Allt sem ég hef öðlast á þessum tæpu níu árum. Allt sem ég hef upplifað, lent í og lært. Ég varð meyr af að lesa þessa frétt og ég fylltist þakklæti og fékk líka yfir mig þessa undarlegu tilfinningu um að ég væri hólpin, eða meira svona bara "ég rétt slapp". Því að guð má vita hvaða leið ég hefði annars farið.

Laugardagshugleiðing

Ég bauð mig fram í dag (ekki til formennsku í flokki þó) - og fékk að leyfa andanum að leika um mig og nota mig ... fór yfir farinn veg og þegar ég geri það sé ég alltaf hversu mikið hefur breyst í lífinu mínu ... það er af sem áður var, hið gamla er orðið að nýju ... ég er orðin að nýrri konu - konu með tilverurétt, konu sem má gera mistök og vera mannleg - ég er svo fegin að ég skuli ekki halda að ég sé orðin að andlegri afrekskonu, heldur er ég áfram ég - ég hef breyst, en í grunninn er ég enn ég og ég má ekki gleyma því ... því á meðan ég er ennþá ég get ég kallað fram í hjarta mínu minninguna um það hvenrig það var að vera ég áður en ég fékk lausn í lífið mitt ... takk

Hugleiðing dagsins

Kannski er betra fyrir mig að blogga, ég veit það ekki. Ég er hugsi yfir dögunum, vikunum, mánuðunum sem fjúka framhjá. Ég átti átta ára edrúafmæli fyrir rúmri viku. Alltaf þegar ég á afmæli (allar tegundir) fer ég að hugsa, ég álít hvern afmælisdag nýtt upphaf, ég er algjör sökker fyrir nýjum upphöfum, fór að grenja í íslenskutíma þegar Atli lonsjorei var að kenna mér Völuspá um árið - Sér hún upp koma öðru sinni jörð úr ægi iðjagræna - þvílíkt fyrirheit - en svona er ég, hef ekki verið þakklátari fyrir neitt í heiminum en einmitt að læra að geta byrjað upp á nýtt - á öllum sviðum. Ég hef ekki verið nógu dugleg að fara út á meðal fólks síðustu mánuði, það er ekki gott fyrir mig, sjálfsskoðun í einrúmi fer mér afskaplega illa og hefur alltaf gert. Það endar iðulega með því að þegar ég svo loksins drullast út úr húsi, verð ég svo upptekin af því að bera ykkar ytri aðstæður við mínar innri, að ég fer öll í hnút. Ég gleymi því hvað ég er rík manneskja, hvað ég er lánsöm og hvað ég hef margt til að þakka fyrir. Ég á algjörlega frábært líf í dag og það er bara þannig af því að ég sjálf hef ekki of mikið verið með fingurna í uppbyggingunni - ég þarf stöðugt að minna mig á að ég get ekki stjórnað þessu, ég get ekki stjórnað eigin lífi, minn æðri máttur sér um mig, hvort sem er í gleði eða sorg, í gleði fagnar hann með mér, í sorg grætur hann með mér - ég veit það, ef ég lít yfir líf mitt þarf ekki fleiri vitnanna við - en þetta er ekki búið - nýr kafli er að hefjast, honum fylgir nýtt hlutverk ... það þarf enginn að hafa áhyggjur af því að það verði einhver lognmolla í mínu lífi, hvorki hér eftir né hingað til - meira um það síðar

dúnn & friður

e


En að taka þetta bara alla leið ...

... og taka upp "eitt barn á hjón" regluna eins og í Kína, það hlýtur eitthvað að sparast í fæðingarorlof þannig ... og nota bene, þá verða líka færri börn um hvern vaxlit á leikskólanum ...
mbl.is Skerðingu fæðingarorlofs víða mótmælt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmönnum??

 

Ég veit ekki, en mér finnst nú meira áríðandi að bólusetja kennara, leikskólakennara og dagmæður heldur en þingmenn ... hvað finnst þér?

 

 

 


mbl.is Mögulegt að fleiri látist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

sjúkk

ég hlýt að vona að þessu lík framtök verði fleiri - annars nenni ég ekki að halda áfram í skólanum

 

 

 

 


mbl.is Einkasjúkrahús í Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

ég hef alveg skoðun...

Höfundur

Elín Sigríður Grétarsdóttir
Elín Sigríður Grétarsdóttir

er frekar til friðs en hitt

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...avel_894003
  • ...0242
  • ...dsc00286
  • ...026
  • ...012_821512

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband