Færsluflokkur: Bloggar

Barn í óskilum ??

Það er svo skrítið, að minningin um barnið sem grenjaði stanslaust og engdist um af vansæld meira og minna frá fæðingu, virðist hafa þurrkast út á nokkrum dögum ... dóttir mín er allt í einu orðin svo ógurlega vær og góð, hún bara drekkur úr pelanum sínum, sýgur snuðið sitt, borðar grautinn sinn og sefur meira að segja úti í vagni (er að nálgast tvo tímana í þessum töluðu orðum) ... hún fer upp í rúm klukkan átta á kvöldin, eftir graut, bað og knús frá pabba sínum og mömmu, flestar þessara athafna framkvæmir hún þegjandi og hljóðalaust og með bros á vör. Þessi sama stúlka er auðvitað orðin nokkuð þroskuð, á viku eftir í fimm mánuðina ... sem er annað, mér finnst þessi tími hafa verið svo ótrúlega fljótur að líða, mér finnst eins og það hafi verið í gær að við hjónin (hjónaleysi þá) fengum hana ylvolga og sleipa í fangið og upplifðum hina fullkomnu hamingju, hann í fyrsta skipti og ég í annað, ég hafði brotið heilann um það hvort nóg væri til af móðurástinni til að deila milli tveggja, það kom í ljós að nýtt hólf myndast með hverju barni sem fæðist, svo að ég hef ekki áhyggjur af því meir ... þegar vanlíðanin var yfirstaðin hjá unganum var ekki það eina sem gerðist að friður yrði í kotinu, það kom líka í ljós að undir amaseminni bjó þessi yndislegi karakter, hún er fyndin og skemmtileg og talar mikið (guðmávita hvaðan hún hefur það), hún sýnir umhverfi sínu áhuga og brosir framan í hvern sem er ... frumburðurinn minn er búinn að vera í sveit hjá ömmusinni&afa síðan 5.júlí, hann ætlar að koma heim á mánudaginn og vera í viku til að leika við vini sína áður en hann fer í Vatnaskóg 10-16.ágúst, það verða síðustu forvöð því að þegar hann kemur þaðan, verðum við flutt í Hafnarfjörðinn ... eins og mér fannst gott að hann færi í sveitina, er ég farin að sakna hans óskaplega, er og hef alltaf verið hálfvængbrotin þegar hann vantar, verð voðalega þreytt í naflastrengnum þegar hann er togaður svona langt í langan tíma :) ... held það sé ekki fleira í bili, óska ykkur dúns&friðar og góðrar helgar


Not just a hat rack

Brúarflöt - Fyrsta heimilið mitt, þar bjó ég með mömmu&pabba og þremur mikið eldri bræðrum mínum, stór garður og kofinn minn í garðinum. Þar varð atburður sem hefur sett mark sitt á allt mitt líf, þegar ég vaknaði átta ára gömul hjá mömmu látinni, dagur sem ég gleymi aldrei.

Smáragata - Þar bjuggum við pabbi í góðu yfirlæti hjá Ömmu Dóru eftir lát mömmu, sleiktum sárin og undirbjuggum okkur undir nýtt líf á breyttum forsendum. Það sama gerðum við Jóhann Jökull þegar við pabbi hans skildum, en þá var Amma Dóra horfin í óminnið, minningarnar um æskuna á Smáró héldu oft í mér voninni.

Espigerði - Við pabbi fluttum í litla íbúð og þar kynntist hann stjúpu minni, sem bjó í sömu blokk, saman fluttum við svo í næstu blokk og ég bjó þar þangað til ég fór til Ameríku, ég brallaði margt og misjafnt og eyddi þarna unglingsárunum. Þegar ég kom heim að utan voru þau flutt, en Amma Ásta pantaði að fá mig til sín, í sömu blokk. þegar ég vaknaði eftir lúr eftir langt flug frá usa, færði amma mér samloku með skinku&osti og bjór í rúmið, við höfðum það oft gott saman, reyktum, drukkum bjór, borðuðum smarties og lásum Barböru Cartland úr heimsenda kassanum af bókasafninu.

Bellaire Ave. - AuPair hjá Hebu og Gregg í 11 mánuði, passaði tvo yndislega strákaláka sem ég myndi í dag sennilega ekki ná í höku.

Lokastígur - Varð ólétt og átti Jóhann Jökul - allt sem gekk á var þess virði, því ég fékk hann.

Hnjúkabyggð - Skrítnasta sumar lífs míns, skil ekki hvernig ég hafði það af.

Skúlabraut - Við mæðginin tvö í risastóru raðhúsi, guðsélof fyrir fjölskylduna á Mýrarbraut.

Sveitin - Eitt af því sem ég varð að prófa.

Hátún - Þar bjó ég þegar ég fór í meðferð, pínkulítil skonsa á sjöundu hæð, gott athvarf að eiga þegar ég tók mesta gæfuspor lífs míns, að hætta að drekka og fara í meðferð, sjö og hálft ár síðan.

Vesturberg - Hér er ég búin að vera í sex ár, lengsti tíminn á einum stað síðan ég var táningur, ég fæ tár í augun þegar ég hugsa um þennan tíma, allt sem ég hef gengið í gegnum, allt sem ég hef áorkað og það er klárt mál að ég er ekki sama manneskjan og flutti hérna inn, heldur er ég betri, sterkari, vitrari og ef einhver hefði rétt mér mynd af lífinu mínu í dag þegar ég flutti inn, hefði ég sagt já takk, en snarlega skipt um skoðun ef ég hefði fengið leiðarvísinn í heilu lagi - sem betur fer hef ég fengið handritið afhent blaðsíðu fyrir blaðsíðu, bara að morgni dags, einn dag í einu.

Klukkuberg - Þangað flyt ég 15.ágúst næstkomandi, með eiginmanninum mínum og tveimur heilbrigðum, dásamlegum börnum og við ætlum að byrja restina af lífinu okkar saman, ég legg það í hendur míns æðri máttar, endalaust þakklát fyrir hvert hann hefur leitt mig og allt sem ég hef öðlast.


NMW

Nú virðist vera sem breytingar séu í sjónmáli, við erum að fara á fullt í fasteignaleit, það eru margar tilfinningar í gangi, ég náttúrulega fæ kvíða/drama/svartsýniskast ... höndla ekki breytingar vel, þ.e.a.s. ekki breytingar sem ég ákveð sjálf :D ... en það er ekki annað að gera en að halda áfram ... nmw nmw nmw

Dagur 1413

... ég er búin að vera rosalega löt að blogga, eða kannski ekki löt, það hefur ekki gefist tími, litli vökustaurinn minn sér alveg til þess að við foreldrarnir gerum ekkert nema það allra nauðsynlegasta ... þessar fimmtán vikur hafa verið þær erfiðustu lengi - og mér er skítsama hvað öllum finnst, ég skammast mín ekkert fyrir að viðurkenna að mér finnst þetta á stundum bara vera drulluerfitt og hef oftar en einu sinni algjörlega misst húmorinn fyrir móðurlífinu (mín nýja íslenska þýðing á orðinu motherhood) - en þetta horfir allt til betri vegar, sú stutta er hætt þessu kveisustandi og nú stendur bara eftir lítil dekurdúkka sem ekki vill sofa og er orðin vön að láta halda á sér og að fá að hanga á túttu þegar hún vill ... uppeldið verður tekið föstum tökum á allra næstu dögum/vikum ... ég myndi ekki hata að fá að sofa heila nótt - hefur ekki gerst í hálft ár eða svo ... reyndar sefur litla skottið núna (þori varla að skrifa þetta, svo hrædd um að hún vakni þá!) og það eru dásamlegar stundir, það er ótrúlegur léttir að henni skuli vera bötnuð kveisan, það er svo erfitt að horfa á hana engjast um í magapínunni og glatað að vera svona ráðalaus, því það er jú engin lækning til við ungbarnakveisu og enginn svosem sem veit út af hverju hún kemur ... reyndar er augljóst að það skiptir máli hvað ég borða, hún var allt önnur þegar ég hætti að nota mjólkurvörur, ég tók líka út rófur, hvítkál, lauk og soya en ég veit ekkert hvort það hafði einhver áhrif, það var þegar hún var bara 2-3 vikna ... ég held að mjólkin hafi gert útslagið ... en það getur velverið að það sé eitthvað allt annað en á meðan hún er í lagi ætla ég ekki að nota mjólkurvörur ... ég fékk mér soyapönnuköku í morgun, ætla að fylgjast með því hvort henni verður illt eftir það ... Ó MÆ DOG er þetta  málið ... ég eignast eitt barn og dettur ekki í hug að skrifa um neitt annað en hana ... dís hvað ég er leiðinleg ... ég biðst forláts, þetta átti að verða rosa djúp færsla um fráhaldið mitt og hvað ég hef öðlast í lífinu mínu á þessum tæpu fjórum árum síðan ég fékk lausnina og hvað lífið er að leika við mig þessa dagana ... en núna er ég bara ótrúlega syfjuð og langar að leggja mig og dreg dýptina saman í nokkur orð ...

Það sem ég er að fá í dag vegna þess að ég er í fráhaldi

  • að vera í kjörþyngd (+nokkur meðgöngukíló)
  • ég var að gifta mig
  • fæ að hjálpa öðrum
  • fæ að kynnast öðrum sem díla við það sama og ég
  • fæ að lifa andlegu lifi
  • fæ að upplifa hluti sem kæmu ekki til mín nema afþví að ég er til friðs
  • rofin bönd verða heil að nýju 

og svo mætti lengi telja

farin að lúra smá

esg


djöst meríd

Þetta er nú búinn að vera  meiri dagurinn - þegar ég klæddi mig í kjólinn kortér í skírn, þá bara passaði hann alls ekki ... svo ég mátti gera svo vel að bruna í smáralind og fá næstu stærð fyrir ofan, sem var svo ekki til svo ég þurfti að velja mér annan kjól á núll tveimur ... sem heppnaðist og ég var voðalega fín ...

Við gerðum smá prakkarastrik, komum öllum á óvart með því að gifta okkur áður en börnin voru skírð ... ótrúlega gaman ! Athöfnin var yndisleg, veislan heppnaðist vel og þetta hefur verið dásamlegur dagur - ég er allavega hamingjusömust í heimi og þó víðar væri leitað ...

góðar stundir

Frú Elín

 


ég er að baka ...

... fyrir skírnarveislu barnanna minna, sem er á laugardaginn.

Það er nóg að gerast í hausnum á mér við baksturinn. Fyrst og fremst þessi beisikk atriði, ekki sleikja puttana, ekki smakka og allt slíkt sem ég þarf að passa því ég er í fráhaldi, reyndar er þetta orðið mér eðlislægt og ekki vandamál, en ég þarf samt að hafa hugann við þetta, annað væri óábyrgt. Svo þarf ég að passa mig á eigingirninni - einhverjir gætu spurt sig hvernig í ósköpunum er hægt að tengja bakstur við eigingirni ... ekki vandamál hjá mér sem er sjálfselsk og eigingjörn fyrir allan aurinn - málið er nefnilega það að ég borða ekki þessar kökur og finnst þá ekki jafn mikilvægt að vanda mig og gera vel ... en mér finnst nú svo margt. Ég er a.m.k. núna að leggja mig alla fram og ætla að gera þessar kökur eins bragðgóðar og flottar og ég get. Svo er það eitt sem kemur mér alltaf jafn mikið á óvart þegar ég baka t.d. súkkulaðiköku, það er svo rosalega mikið af deigi - þetta verða alltaf 3 botnar, hérna einu sinni náði ég rétt að slefa í tvo ... ástæðan? jú ég át alltaf deigið :). Þó ég sé með hugann við þetta, er ég algjörlega frjáls, mér dettur ekki í hug að ég gæti höndlað að smakka, eða fá mér eina sneið, það er ekki til neitt hjá mér sem heitir ein sneið, mig langar ekki í eina sneið, það tekur því ekki, ein sneið gerir ekkert fyrir mig, hefur aldrei gert, mun aldrei gera.

Í meðvirkni minni hef ég núna alveg sjúklegar áhyggjur af því að enginn mæti í skírnina, fólki finnist við ekki nógu merkileg og gleymi að koma ... kræst best að slaka aðeins á :D

egg og sykur

esg

 


ótrúlegt

ef maður er ekki týpan til að vera í fangelsi er maður sennilega ekki heldur týpan til að smygla eiturlyfjum og ætti trúlega að láta það alveg vera

 

 


mbl.is „Ég á eftir að deyja hérna"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ég er svo aldeilis

ég er ein - í þögn

litla mús er sofandi (sem gerist ekki oft) - karlinn lagði sig (sem gerist enn sjaldnar) - drengurinn er úti að leika sér (sem gerist æ oftar, sem betur fer)

örverpið er búið að eiga voða bágt, hún grætur og grætur - en er að eiga góðan dag í dag, vonum að þeir verði fleiri - ég skrifa þetta á þriggja mánaða kveisu, sem þýðir að það er mánuður eftir - held mig við það, þangað til annað kemur í ljós

ég er ekkert voða sterk, að hlusta á hana gráta dregur úr mér allan kraft og oft enda ég dagana vonlítil og græt sjálf - heittelskaður er í fullu starfi við að telja í mig kjark og hvetja mig til þolinmæði

við ætlum að skella okkur í bústað í næstu viku, bara við tvö með litluna, stóri bróðir verður hjá ömmu sinni á meðan - ætlum að skilja tölvurnar eftir og vera bara kósí og fara í göngutúra og hafa það næs - o hvað ég hlakka til

ég hlakka ótrúlega til þegar henni fer að líða betur - hún er svo skemmtileg, farin að brosa og hjala og það verður svo gaman þegar hún fer að njóta lífsins, þetta korn

annars er nú hver dagur öðrum líkur, ég er dugleg að fara á fundi og starfa með öðrum, það gerir mig að betri manneskju 

takk í dag

e


mín ábyrgð

er sú að barnið mitt sé rétt fest í bílinn - ég hef náð að viðhalda því að minn tólf ára er alltaf í belti, hvort sem hann er frammí eða afturí - ég er með einhvern voða voða fínan stól fyrir þessa sex vikna, með "base" og öllu - ég fer eftir leiðbeiningum á stólnum við að festa hann, en ég veit ekkert upp á hár hvort hann er 100% rétt eða nógu vel festur - getur maður farið eitthvert til að láta athuga það?
mbl.is Ranglega festir bílstólar algengasta dánarorsökin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

ég hef alveg skoðun...

Höfundur

Elín Sigríður Grétarsdóttir
Elín Sigríður Grétarsdóttir

er frekar til friðs en hitt

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...avel_894003
  • ...0242
  • ...dsc00286
  • ...026
  • ...012_821512

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband